top of page

Efnaskiptaheilsa kvenna á miðjum aldri. Af hverju breytist líkaminn og hvað er til ráða?



Margar konur á miðjum aldri taka eftir þyngdaraukningu eða breytingu á því hvernig fituforðinn safnast fyrir á líkamanum, þrátt fyrir að þær borði hollt og hreyfi sig reglulega. Konur lýsa því gjarnan að þær þekki ekki lengur líkamann sinn. En hvað veldur þessum breytingum, og hvernig er hægt að bregðast við? 


Hvað er efnaskiptaheilsa (metabolic health) og hvers vegna skiptir hún máli?

Efnaskiptaheilsa lýsir því hvernig líkaminn vinnur úr orkunni sem kemur úr fæðunni, og hvernig hann viðheldur jafnvægi á blóðsykri, insúlíni, blóðfitum, blóðþrýstingi og líkamsþyngd. 


Heilbrigð efnaskiptaheilsa þýðir að líkaminn:

  • Viðheldur stöðugum blóðsykri

  • Nýtir insúlín vel

  • Hefur jafnvægi á blóðfitu og blóðþrýstingi

  • Geymir fitu á eðlilegan hátt

Góð efnaskiptaheilsa er mikilvæg undistaða almennrar vellíðunar og verndar okkur gegn ýmslum langvinnum sjúkdómum. 


Hvað gerist ef efnaskiptaheilsa raskast? 

Efnaskiptavilla (metabolic syndrome) kallast það þegar efnaskiptaheilsan okkar raskast. Efnaskiptavilla er samheiti yfir röskun á nokkrum lykilþáttum í efnaskiptum og eykur verulega líkurnar á hjarta- og æðasjúkdómum, sykursýki (tegund tvö) og heilablóðföllum.

Til greiningar þurfa þrjú eða fleiri eftirfarandi einkenna að vera til staðar:

  • Hár blóðþrýstingur.

  • Hár blóðsykur eða aukið insúlínviðnám.

  • Kviðfita (fitusöfnun um miðju).

  • Lágt HDL (góða kólesterólið).

  • Hækkuð þríglýseríð (fitur í blóði).


Efnaskiptavilla er oft hljóðlát fyrst um sinn, og þess vegna greinist hún oft seint. Fyrstu einkennin geta verið þyngdaraukning og orkuleysi.


Konur á breytingaskeiði og í kringum tíðahvörf eru sérstaklega viðkvæmar fyrir því að þróa með sér efnaskiptavillu, meðal annars vegna hormónabreytinga sem hafa áhrif á insúlínnæmi, fitudreifingu og blóðfitur.

Góðu fréttirnar eru þær að efnaskiptavillu er oft hægt að snúa við með markvissum lífsstílsbreytingum sem styðja við efnaskiptakerfi líkamans.


Hvað breytist í líkama kvenna á miðjum aldri?

Það hægist á efnaskiptahraðanum smám saman eftir fertugt. Það að viðhalda vöðvamassanum hefur jákvæð áhrif á grunnbrennsluna. Hormónabreytingar í tengslum við breytingaskeiðið spila einnig stórt hlutverk.

  • Estrogen hefur áhrif á hvernig líkaminn geymir fitu og bregst við insúlíni. Þegar estrogen minnkar í kringum breytingaskeið og tíðahvörf getur það haft áhrif á blóðsykursstjórnun.

  • Svefntruflanir og streita sem fylgir oft breytingaskeiðinu hækka streituhormónið kortisól, sem hefur áhrif á matarlyst og fitusöfnun.

  • Insúlínnæmi minnkar. Insúlín er hormón sem hjálpar blóðsykrinum að komast úr blóðinu og inn í frumurnar þar sem hann er notaður sem orka. Þegar við erum insúlínnæm þá bregst líkaminn vel við insúlíni og blóðsykur helst í jafnvægi. Ef insúlínnæmi minnkar þarf líkaminn að framleiða meira af insúlíni til að ná sama árangri. Þetta kallast líka aukið insúlínviðnám (forsykursýki). 


Þetta eru líffræðilegar breytingar sem kalla á nýja nálgun, lífsstílsbreytingar og betri skilning á líkamanum.


Þetta snýst ekki um að borða minna, heldur betur.

Algeng viðbrögð við þyngdaraukningu eru að skera niður hitaeiningar. En það getur haft öfug áhrif, minnkað efnaskiptahraða og aukið hungurtilfinningu.

Áhrifaríkast er að:

  • Byggja upp vöðvamassa með styrktarþjálfun.

  • Stilla blóðsykurinn af með próteinum og trefjum í hverri máltíð.

  • Forðast blóðsykursveiflur með reglulegum, næringarríkum máltíðum.

  • Hlúa að svefni og draga út streitu:  þar sem hormónin stjórnast ekki aðeins af því sem við borðum, heldur líka almennt af lífsstílnum okkar.



Heildræn nálgun að efnaskiptaheilbrigði

Við hjá Gynamedica trúum því að heilsa kvenna á miðjum aldri krefjist heildrænnar nálgunar, þar sem tekið er tillit til hormónaheilsu og sex hornsteina heilsunnar. Hornsteinar heilsunnar samkvæmt lífsstílslækningum eru: Hreyfing, næring, svefn, andleg líðan, félagsleg tengsl og skaðleg efni. 


Þetta snýst ekki um öfgar eða fullkomnun, heldur raunhæf skref í átt að vellíðan.


Við hjá Gynamedica viljum styðja þig í gegnum þetta tímabil

Við bjóðum upp á Heilsuhandleiðslu fyrir konur sem vilja: 

  • gera varanlegar lífsstílsbreytingar sem leiða þær í átt að betri efnaskiptaheilsu.  

  • kortleggja heilsutengda þætti og fá aðstoð við að setja raunhæf markmið út frá einstaklingsmiðuðum þörfum.​


Höfundur: Harpa Lind Hilmarsdóttir, lífsstílshjúkrunarfræðingur



Heimildir:

 
 
 

コメント


bottom of page