Tíðahvörf út frá mismunandi sjónarhornum
- Harpa Lind
- Oct 8, 2024
- 2 min read

Breytingaskeiðið og tíðahvörf eru einstakt líffræðilegt ferli sem hefur lengi vakið athygli vísindamanna, ekki aðeins vegna þeirra líkamlegu og heilsufarslegu breytinga sem verða heldur einnig út frá sjónarhornum mannfræðinnar og þróunarfræðinnar.
Mannfræðilega sjónarhornið á tíðahvörfum snýr að því hvernig menningin, samfélagið og sagan mótar skilning okkar á þessu tímabili í lífi kvenna. Í sumum samfélögum er litið jákvæðum augum til tíðahvarfa þar sem konur fá aukna félagslega stöðu, á meðan í öðrum samfélögum er þetta tímabil tengt neikvæðum hugmyndum um sjálfsmynd og hlutverk. Mannfræðin leggur áherslu á að upplifun kvenna af tíðahvörfum sé ekki aðeins líffræðileg heldur einnig mótuð af félagslegum þáttum eins og fjölskyldu, vinnuumhverfi og læknisfræðilegum viðhorfum.
Út frá þróunarfræðilegu sjónarhorni hefur tíðarhvörfum verið gefin sérstök athygli þar sem tímasetning þeirra á miðju æviskeiði gerir okkur frábrugðin öðrum dýrum. Ein af lykilkenningunum er “ömmu kenningin” eða “grandma theory” sem leggur til að tíðahvörf hafi þróast í þeim tilgangi að eldri konur hætti að eignast börn til að einbeita sér að því að hjálpa til við umönnun barnabarna. Það að amman væri til staðar átti að bæta afkomu barnabarnanna og auka lífslíkur komandi kynslóða.
Nútímalæknisfræðin horfir á tíðahvörf út frá líffræðilegum, hormónatengdum og heilsufarslegum breytingum sem konur ganga í gegnum. Læknisfræðin leggur áherslu á að greina og meðhöndla einkenni tíðahvarfa, svo sem hitakóf, svefntruflanir, breytingar á andlegri líðan og f.l. https://www.gynamedica.is/einkennalisti.
Hormónameðferð er gjarnan notuð til að milda þessi einkenni og bæta lífsgæði. Á sama tíma leggur nútímalæknisfræði mikla áherslu á langtímaáhrif tíðahvarfa á heilsu kvenna þar sem líkurnar á hjartasjúkdómum, beinþynningu og vitrænni breytingu aukast.
Nútímalæknisfræði vinnur í auknu mæli með sérhæfða nálgun á mismunandi æviskeiðum kvenna. Markmiðið er að greina áhættuþætti snemma til að fyrirbyggja heilsufarsvandamál.
Þar sem samfélagið eldist, og meira en milljarður kvenna á heimsvísu er talinn kominn í tíðahvörf, er nauðsynlegt að innleiða heildræna heilsustefnu sem styður við konur á þessu æviskeiði, sérstaklega þar sem tíðahvörf tengjast langvinnum sjúkdómum eins og beinþynningu, hjarta og æðasjúkdómum og breytingu á vitrænni starfsemi.
Skilningur á þessum þróunar- og sögulegu þáttum hjálpar til við að rjúfa dulúð tíðahvarfa og undirstrikar mikilvægi þeirra í umræðunni um heilbrigt öldrunarferli.
Panay, N., Ang, S. B., Cheshire, R., Goldstein, S. R., Maki, P., Nappi, R. E. og International Menopause Society Board. (2024). Menopause and MHT in 2024: Addressing the key controversies - an international menopause society white paper. Climacteric : The Journal of the International Menopause Society, 27(5), 441–457. https://doi.org/10.1080/13697137.2024.2394950
Kommentare