top of page

Áföll og erfiðleikar í æsku geta haft áhrif á þróun krónískra heilsufarsvandamála á fullorðinsaldri: 

Krónísk heilsufarsvandamál eru margskonar og algengt að þau fari að angra okkur upp úr miðjum aldri hvort sem það gerist á breytingaskeiðinu eða á öðrum tíma.

Þetta geta verið vandamál eins og hjarta- og æðasjúkdómar, sykursýki, offita, gigt, alkahólismi/fíkn, átröskun, kvíði og margt fleira.


Rannsóknir á erfiðleikum í æsku (ACE-rannsóknir - Adverse Childhood Experiences) hafa sýnt fram á að heilsufarsvandi á fullorðinsárum getur tengst erfiðleikum og áföllum í uppvexti. Sterk tengsl hafa fundist á milli margra af algengustu og alvarlegustu heilbrigðisvandamálum nútímans og áfalla og erfiðleika í æsku.


ACE rannsóknir hafa nú verið gerðar í um 25 ár og búið er að þróa einfaldan spurningalista til að meta hve mörg ACE stig einstaklingur fær sem gefur til kynna hvort hann er í áhættu fyrir krónískum heilsufarsvanda. Hægt er að líkja þessu við kólesterólmælingu í blóði sem gefur vísbendingar um áhættu fyrir hjarta-og æðasjúkdómum. Á sama hátt getur hátt ACE skor gefið vísbendingu um meiri áhættu. ACE spurningalistinn felur í sér 12 spurningar um áföll og erfiða reynslu á fyrstu 18 æviárunum.  


Mikil streita í æsku þegar mikilvægur þroski á sér stað, getur leitt til truflana á þroska taugakerfis, heilans, ónæmiskerfisins, hormónakerfisins og efnaskiptum líkamans. Þetta hefur verið kallað eitruð streituáhrif. Þessi eitraða streita er ofvirkni í streitukerfum líkamans sem hefur áhrif á mikilvægan þroska. Langvarandi streita í æsku getur þannig haft þau áhrif á líkamann að veikja varnir hans og stuðlað að ójafnvægi. En rannsóknir hafa einnig sýnt fram á að það er ýmislegt hægt að gera til að vinna gegn þessari þróun. Því þegar hver og einn kemur auga á þetta samhengi þá er smátt og smátt hægt að vinna gegn þessum streituáhrifum. Ef barn lendir í áföllum eða erfiðum aðstæðum en fær góðan stuðning þá þarf það ekki að koma illa út úr því, stuðningurinn skiptir miklu máli varðandi þessi eitruðu streituáhrif. Það er aldrei of seint að byrja að vinna í sinni heilsu og til eru ýmsar leiðir til þess að draga úr þessum streituáhrifum, einnig þegar komið er á fullorðinsárin. Það mikilvægasta er að átta sig á þessum tengslum og byrja að vinna í bættri heilsu og leita okkur aðstoðar.


ACE spurningarnar eru skrifaðar hér fyrir neðan. Fyrir allar spurningar sem svarið er JÁ er skráð eitt stig. Því fleiri stig (áföll) sem einstaklingur hefur upplifað aukast líkurnar á krónískri streitu, kvíða og þunglyndi sem og á ýmsum heilsufarsvandamálum. Mikilvægt er að við sýnum okkur kærleik, samkennd og hlýju og veljum að vinna úr þeim áföllum sem við höfum upplifað.


Erfið reynsla í uppvexti - Adverse Childhood Experiences (ACE spurningarnar)

Já eða Nei spurningar unnar úr íslenskuðum spurningalista Geðhjálpar og ACE-IQ spurningalista Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar:


  1. Bjó einhver á heimili þínu sem þjáðist af þunglyndi, öðrum geðrænum vandamálum eða sjálfsmorðshugleiðingum? (Já/Nei)

  2. Bjó einhver á heimili þínu sem átti við áfengisvandamál að stríða, var alkóhólisti, misnotaði lyf eða fíkniefni? (Já/Nei)

  3. Bjó einhver á heimili þínu sem fór einhvern tímann í gæsluvarðhald eða fangelsi? (Já/Nei)

  4. Slitu foreldrar þínir einhvern tímann samvistum eða skildu? (Já/Nei)

  5. Sást þú eða heyrðir að foreldri eða heimilismeðlimur var sleginn, kýldur, sparkað í hann eða varð fyrir öðrum barsmíðum á heimili þínu? (Já/Nei)

  6. Flengdi, sló, sparkaði, kýldi eða lamdi foreldri, forráðamaður eða annar heimilismeðlimur þig? (Já/Nei)

  7. Varstu móðguð/móðgaður, niðurlægð/ur, var öskrað eða æpt á þig eða þér blótað af foreldri, forráða­manni eða öðrum heimilismeðlimi? (Já/Nei)

  8. Vanræktu foreldrar þínir í langan tíma að sjá þér fyrir fullnægjandi mat og drykk, hreinum fatnaði eða hreinu og hlýju húsnæði. Voru forledrar þínir einhvern tímann það "undir áhrifum" að þau gátu ekki sinnt þér/hugsað um þig? (Já/Nei)

  9. Fannst þér oft eða mjög oft að enginn í fjölskyldu þinni elskaði þig eða fannst að þú værir mikilvæg/ur eða einstök/einstakur? Eða að fjölskyldumeðlimir þínir pössuðu ekki upp á hvern annan, væru ekki nánir hver öðrum eða styddu hvern annan? (Já/Nei)

  10. Snerti einhver þig á kynferðislegan hátt þegar þú vildir ekki að hann/hún gerði það? Reyndi einhver að láta þig snerta sig kynferðislega þegar þú vildir ekki að hann/hún gerði það? Reyndi einhver að þvinga þig til kynferðsilegs atferlis/samneitis þegar þú vildir ekki að hann/hún gerði það? (Já/Nei)

  11. Varstu fyrir einelti/ofbeldi frá jafningja/jafningjum? Lamin/n, sparkað í, læst/ur inni, gert grín vegna kynþátts/litarhátts, gert grín að þér með kynferðislegum bröndurum, athugasemdum eða látbragði, skilin/n útundan, útilokuð/útilokaður eða algjörlega hundsuð/hundsaður, gert grín af vegna útlits eða líkamsástands eða lögð/laggður í einalti á annan hátt? (Já/Nei)

  12. Varstu neydd/ur til að fara/flýja og búa annars staðar? Varstu barin/n af lögreglu, stríðsmönnum eða gengjum? Var fjölskyldumeðlimur myrtur? (Já/Nei)


Heimildir:

·      ACE Aware. (e.d.). ACEs Aware Trauma-Informed Network of Care Roadmap: Principles of trauma informed carehttps://www.acesaware.org/wp-content/uploads/2021/06/Aces-Aware-Network-of-Care-Roadmap.pdf 

·      ACE Aware (e.d.). ACE fundamentals: The science og ACE and toxic stress.  https://www.acesaware.org/ace-fundamentals/the-science-of-aces-toxic-stress/

·      Bucci, M., Marques, S. S., Oh, D. og Harris, N. B. (2016). Toxic stress in children and adolescents. Advances in Pediatrics, 63(1), 403-428.  https://doi.org/10.1016/j.yapd.2016.04.002 

·      Felitti, V. J., Anda, R. F., Nordenberg, D., Williamson, D. F., Spitz, A. M., Edwards, V., Koss, M. P. og Marks, J. S. (2019). REPRINT OF: Relationship of childhood abuse and household dysfunction to many of the leading causes of death in adults: The adverse childhood experiences (ACE) study. American Journal of Preventive Medicine, 56(6), 774-786https://doi.org/10.1016/j.amepre.2019.04.001 

·      Goddard, Anna. 2021. Adverse Childhood experiences and trauma-informed care. Journal of pediatric health care, vol 35, issue 2, bls 145-155. https://doi.org/10.1016/j.pedhc.2020.09.001 

·      Gordon, J. B. (2021). The importance of child abuse and neglect in adult medicine. Pharmacology Biochemistry and Behavior, 211https://doi.org/10.1016/j.pbb.2021.173268 

·      Harvard University. Center on the Developing Child. (2021). A guide to toxic stress. https://developingchild.harvard.edu/guide/a-guide-to-toxic-stress/

·      Zarse, E. M, Neff, M. R., Yoder, R., Hulvershorn, L., Chambers, J.E. og fél. (2019). The Adverse childhood experiences questionnaire: Two decades of research on childhood trauma as a primary cause of adult mental illness, addiction, and medical diseases. Í Cogent Medicine, Abingdon, vol 6, iss.1. DOI: 10.1080/2331205X.2019.1581447


 

1,385 views0 comments

Recent Posts

See All

Jólastreita

Comments


bottom of page